Áramótaupgjörið 2014

Árið 2014 var nú meira árið !
Frægasti einstaklingurinn sem ég hafði séð var Kiefer Sutherland á flugvelli, en nú í ár fór allt á fullt!
Árið byrjaði á þvílíkri bombu, en nýju ári var fagnað með engum öðrum en Steingrími J. og þegar árið byrjar svona er ljóst að eitthvað mikið er í vændum.
Enda kom það á daginn, því strax í byrjun ársins rakst ég á Bjarna töframann á Supersub. Stuttu síðar talaði ég við Jón Jónsson tónlistarmann í símann og sömuleiðis við þá nýbakaðan föður, Ásgeir Erlendsson, úr Íslandi í dag.

Ég skrapp á salernið á árinu og sumar ferðirnar voru merkilegri en aðrar. Í einni slíkri ferð rakst ég á Eyþór Inga Eurovisionstjörnu og í annarri var ég næst-næsti maður á salernið á eftir meistara Bjartmari Guðlaugssyni, (sem samdi m.a. Óskalag Þjóðarinnar). Þar sagði hina ódauðlegu setningu „Hva, allir bara að bíða eftir mér?” , enda röðin löng.

Ég sinnti einnig menningum og listum á árinu. Ég skellti mér á uppistand og sá þar alla í Mið-Íslandi og sjálfur Nilli seldi mér miðann. Ég fór á Aldrei fór ég Suður þar sem Mugison og milljón aðrir gerðu gott mót auk þess sem ég átti gott spjall við  Herra Hammond. Einnig fór ég alla leið til Þýskalands til að sjá nokkur goð til viðbótar – en ég var svo nálægt sviðinu á Metallica og Iron Maiden að ég held ég geti núna talað um hljómsveitarmeðlimi sem vini mína.

Undir lok sumars skellti ég mér svo á Þjóðhátíð í Eyjum og þar voru margir frægir kappar. Heimsfrægastir líklegast Quarashi liðar en margir eru heimsfrægir á Íslandi – t.a.m. Helgi Björns (frændi minn í þokkabót!), Jón Jónsson og svo Stebbi Hilmars – sem á einmitt son sem heitir Birgir Steinn og hann ku vera á barmi heimsfrægðar. Á leiðinni heim í Herjólfi sat svo sjálfur Sverrir Bergmann í röðinni fyrir aftan mig. Toppaði þar góða Þjóðhátíð.

Svo gerðist ég svo frægur að fylgjast með upptökum á Óskalagi þjóðarinnar. Þar hitti ég m.a. Ragnhildi Steinunni og Jón Ólafsson, heyrði Pál Óskar hita upp röddina og svo stóð Unsteinn úr Retro Stefson við hliðina á mér dágóða stund. Á sama stað sá ég Þórhall Gunnarsson, fyrrum Kastljóslegend, reykja rafsígarettu.

Ég fór einnig í bíó á árinu og sá þar m.a. myndina Vonarstræti. Deginum eftir sá ég svo aðalstjörnu myndarinnar, Þorvald Davíð, á leiðinni í ræktina. Á annari bíómynd sá ég Pétur Jesús, Buffara og mikilmenni. Mér skilst að Sigurjón Kjartansson hafi látið sjá sig á sömu sýningu.

Ég fékk mér líka að borða á árinu 2014. Ég hitti Stefán Pálsson bjórspeking, spurningahöfund og altmuligtmand, í nokkrum kökuboðum (enda frændi hans!). Ég sá Sveppa Krull fá sér Serrano og við annað tilefni sá ég Gillzenegger og Hjöbba Ká fá sér Nana-Thai og ræða um veðmálasíður. Á kaffi Grensás sá ég nýrekinn Reyni Traustason fá sér kaffi og meððí. Talandi um Reyni, í besta bakaríi landsins, Reynir-Bakara, rakst ég á Júlíus Vífil borgarfulltrúa. Fiskikóngurinn seldi mér svo ófáar máltíðirnar og Sigfús Sigurðsson handboltastjarna var alltaf hress þegar ég keypti þorskhausa eða lönguflök snemma morguns.

Ég sinnti íþróttunum einnig á þessu ári, enda borgaði það sig augljóslega þegar ég mætti á æfingar ásamt Felixi Bergssyni og Biggest Loser stjörnuþjálfaranum Evert (eða Hinum Gráa, eins og ég kýs að kalla hann).

Á förnum vegi mætti ég stjörnutrommaranum Benna (m.a. úr 200.000 naglbítum) og Júlíus Brjánsson kaffibrúsakall sá ég  tvisvar. En ætli besti frægi einstaklingurinn sé ekki Doddi úr Samaris, eða Doddi bróðir eins og ég kýs að kalla hann. Hitti hann oftar en alla hina frægu og það skiptir miklu máli að vera í svona góðum tengslum við celebanna hér á landi.

Vonandi verður 2015 jafn viðburðarríkt.fraegir6

Auglýsingar

Áramótauppgjör Biggans 2012 – Sjónvarpsþættir

Sjónvarpsþættir:

Ég sá ekkert sérstaklega mikið af sjónvarpsþáttum eða bíómyndum þetta árið, hvað þá eitthvað sem er glænýtt. Ég er dálítið mikið þannig að ef sjónvarpsþáttur er í tísku þá einhvern veginn deyr öll löngun hjá mér að sjá þáttinn, svo ég horfi yfirleitt ekki á vinsæla þætti fyrr en einhverjum árum eftir að þeir eru gerðir. En hérna er smá yfirlit yfir helstu þættina sem ég horfði á í ár, hvort sem þeir komu út árið 2012 eður ei.

Cool cats segja þér að nota ekki dóp (úr Community)

Community: Grínþáttur sem fjallar um hóp af fólki sem er í svokölluðum Community college í Bandaríkjunum, en mér skilst að slíkir skólar séu ekki mjög hátt skrifaðir hvað menntun

varðar. En þættirnir eru allavega mjög góðir, fyrsta serían byrjar frekar rólega og er kannski fremur einsleit. En í annarri og þriðju seríu er eins og handritshöfunarnir hafi ákveðið að leika sér meira og fara út fyrir kassann. Hver þáttur varð því meira eins og stuttmynd, ólík þemu tækluð í hverjum þætti og mikill hasar yfirleitt á boðstólnum. Fjórða og síðasta serían ku vera á leiðinni, mikið verður nú gaman þá.

Borgen: Meðan ég bjó úti í Danmörku setti ég mér það markmið að horfa eitthvað á danskt sjónvarp eða sjónvarpsþætti. Það misfórst eitthvað, enda danska sjónvarpið að mestu fullt af glötuðum raunveruleikaþáttum og söngvakeppnum. En ég varð mjög heillaður af þáttunum Borgen samt sem áður. Þetta eru pólitískir þættir sem fjallar um konu sem stefnir á frama í dönskum stjórnmálum. Vil nú ekki segja of mikið um innihaldið, en ég held að þættirnir gefi manni góða innsýn í heim stjórnmálanna og öll klækjabrögðin og tilfinningarnar sem fyrirfinnast þar. Ég er hrifinn af evrópskum þáttum og bíómyndum yfirleitt þar sem mér finnst þær einhvern veginn mannlegri en það sem kemur frá könunum. Þessir þættir ná að vera mannlegir á sama tíma og þeir eru mjög vel gerðir. Ef einhver veit um aðra góða danska þætti má hann endilega láta mig vita.

The Newsroom: Aðrir pólitískir þættir um lífið á fréttastofu. Þarna eru teknar raunverulegar fréttir og þær samtvinnaðar í líf fréttamannanna sem flytja þær. Margt mjög flott í þessum þáttum og góðar pælingar – sýnir manni svolítið bak við tjöldin í heimi stjórnmála, viðskipta og frétta og hvernig það tvinnast saman (hversu mikið sem er satt í því svosem). En helsti ókosturinn við þættina er hversu „amerískir“ þeir eru, ég fékk æluna alveg nokkrum sinnum upp í kok af allri væmninni og þjóðernisklisjunum sem skinu í gegnum suma þættina. En ég hlakka til að sjá aðra seríu af þessum þáttum.

Entourage: Var mjög fljótur að renna í gegnum nokkrar seríur af þessum þáttum, en svo er eins og þetta hafi verið að þynnast ansi verulega í lokin og ég hef ekki enn nennt að klára áttundu og síðustu seríuna.

30 rock gerir þér kleift að gefa englum fæv

30 Rock: Ég hef heyrt að þeir ætli að hætta að framleiða þessa grínþætti, en það væri mikil sorg. Mjög skemmtilegir grínþættir og jafnvel með dálitla ádeilu, sem ég heillast yfirleitt af. Og þeir innihalda engan dósahlátur, en vöntun á slíku er grundvallarforsenda þess að ég nenni að horfa á grínþætti!

Being: Liverpool – Þetta eru amerískir raunveruleikaþættir um uppáhalds fótboltaliðið mitt, Liverpool. Þarna er fylgst með undirbúningstímabilinu hjá liðinu og baksviðs í fyrstu leikjum liðsins. Nokkuð áhugvart að sjá þessa þætti og kíkja aðeins bakvið tjöldin hjá liðinu. En oft á tíðum ansi mikil vella og væmni – enda stílað á amerískan markað.

Secret diary of a call girl: Mörgum þykir þetta val mitt á sjónvarpsþáttum ekki alveg passa við ímynd mína sem karlmaður, en hverjum er ekki sama. Þessir þættir fjalla um líf vændiskonu, eða háklassahóru. Hún er að sinna starfi sem þér þykir skemmtilegt og fær hellings pening fyrir vikið – en er það nóg? Mér fannst allavega gaman að fylgjast með ævintýrum frú Belle, en þættirnir voru kannski orðnir full endurtekningarsamir í lok fjórðu og seinustu seríunnar.

Aðra þætti horfði ég varla á í ár, svo ég muni allavega.

Tónlistaruppgjör Biggans 2012

Allir sem vilja láta taka sig alvarlega koma með uppgjör yfir árið, hér er mitt, en þessi fyrsti hluti fjallar um tónlistarlegu hlið ársins 2012

Plöturnar:

Ég hef hlustað talsvert á tónlist í ár líkt og ég hef alltaf gert og kíkt á tvær tónlistarhátíðir. Hins vegar hef ég lítið sem ekkert kynnt mér það heitasta í erlendri tónlist – ég held ég geti varla nefnt nýja erlenda plötu sem ég hlustaði á af einhverju viti í ár. En ný íslensk tónlist hefur fengið að hljóma þeim mun oftar. Þær plötur sem hafa oftast ratað á fóninn eru þær 3 plötur sem hafa toppað flesta lista gagnrýnenda; Exorcise með hljómsveitinni Tilbury, Retro Stefson með Retro Stefson, og Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta. Auk þessa þriggja hefur stuttskífa Samaris, Stofnar Falla hljómað mjög reglulega. Árið 2012 var gjöfult í íslenskri tónlist, en ég veit ekki með þá erlendu – er erlenda rokkið kannski dautt eftir allt saman? Ég var allavega farinn að hlusta ótæpilega mikið á kántrý í lok árs, en slíkt gerði faðir minn meðan rokkið var í lægð og mér skilst að Arnar Eggert tónlistargagnrýnandi hafi farið sömuleið.

Stone Roses og Pukkelpop:

Rennibrautin sem olli því að ég missti af Hot Chip

Rennibrautin sem olli því að ég missti af Hot Chip

Ég fór svo á nokkra tónleika og tvær tónlistarhátíðir á árinu. Ég fór á frábæra endurkomu tónleika með hljómsveitinni Stone Roses í Barcelona, en ég hafði dýrkað og dáð hljómsveitina í mörg ár og var búinn að bíða endurkomu þeirra lengi. Þeir stóðu sannarlega undir væntingum í þetta skiptið.

Ég sá þá svo aftur á  tónlistarhátíðinni Pukkelpop í Belgíu, en þangað fór ég ásamt mörgum af vinum mínum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert rosalega heillaður af line-öppinu á hátíðinni við fyrstu sýn, en ég lét til leiðast að fara með. Hátíðin var hins vegar mjög fín. Það var þó þannig að það misfórst eitthvað að sjá helstu böndin sem mig langaði að sjá, og ástæðurnar fyrir því að sjá böndin ekki voru vægast sagt misgóðar. Stundum þurfti maður að gera málamiðlanir og fara þar em vinirnir voru að fara. Við misstum af einhverjum tónleikum því við vorum of sein að koma á svæðið og stundum var ég of upptekinn við að renna sér á sápubraut til að fara á tónleika – eftirá að hyggja kannski ekki besta ákvörðun í mínu lífi.

Ég held að Keane hafi átt bestu tónleika hátíðarinnar, bjóst alls ekki við því en tónlistin þeirra smellpassaði einhvern veginn inn í steikjandi hitann sem var á hátíðinni. Annars fannst mér oft vanta upp á stemmninguna á tónleikunum á Pukkelpop, kannski var það 36°c hitinn sem hafði þar áhrif, en ég upplifiði það allavega þannig að fólk hafi ekki verið mikið á nótunum á flestum tónleikanna.

Síðan fór ég á tónleika með engum öðrum en Paul McCartney í Danmörku…eða nei, hann andskotaðist til að hætta við tónleikana á seinustu stundu! Ég held að ég hafi aldrei verið jafn spenntur fyrir neinum tónleikum á ævinni, svo svekkelsið var ansi hreint mikið þegar hann afboðaði sig. Það er vonandi að ég nái að sjá kallinn áður en hann dregur sig í hlé, en hann varð stjötugur í ár.

Iceland Airwaves:

Svona einhvern veginn leit huldukonan góða út

Það gerðust svo undur og stórmerki í lok október. Ég var á gangi í ógeðslegu veðri, frá Serrano á Hringbrautinni og á leiðinni upp í Háskóla til að læra. Venjulega fer ég yfir götuljósin, en í þetta skiptið ákvað ég frekar að labba yfir brúna. Og sem betur fer gerði ég það. Því þarna hjá brúnni var kona sem hafði staldrað við eins og hún væri að leita að einhverju. Og þar sem Iceland Airwaves var í gangi (og venjulegir Íslendingar láta ekki sjá sig úti)  datt mér í hug að hún gæti verið að leita að tónleikastað. Sem og hún var, hún var að leita að Norræna húsinu, sem er þarna nokkur hundruð metra í burtu. Ég benti henni á hvar það væri, talaði örlítið við hana um Airwaves hátíðina og gerði mig tilbúinn að rölta mína leið. En þá spyr hún mig hvort að mig vanti ekki miða á hátíðina. Ég sagðist ætla að sjá einhverja tónleika off-venue, annars hefði ég ekki miða. Þá bauðst hún hreinlega til að gefa mér eitt stykki miða, af því ég hafði bent henni á hvar Norræna húsið væri! Ég fór með þessari konu á tónleika með Guðríð Hansen, færeyskri söngkonu sem ég heillaðist mikið af þarna. Síðan kvaddi ég þessa ókunnugu konu, og hefur aldrei spurst til hennar síðar.

En rosalega er ég henni þakklátur! Ég var kominn með miða á Airwaves og SigurRós, no strings attached. Það riðlaði soldið dagskránni minni, ákvað að sleppa flestum af þessum Off-venue tónleikum og einbeita mér að hinu sem selt væri inn á. Miðann fékk ég um föstudagsmorguninn, en hér kemur örstutt yfirlit yfir það helsta sem ég sá:

Of monsters and man: Ætlaði að gera heiðarlega tilraun til að sjá þau spila á föstudeginum en þar sem það var u.þ.b. 800 manna röð á tónleikastað sem

Svona u.þ.b. var röðin á Of Monsters and Man

rúmar eflaust um 100 manns ákvað ég að gefast upp og fara eitthvert annað. Endaði á að rölta um miðbæinn í blindbyl og sjá lítið sem ekkert merkilegt.

Mammút – Á föstudeginum langaði mig að sjá svo margt, en það endaði eiginlega á því að ég sá ekki neitt almennilega. Mammút var ein af þessum hljómsveitum þar sem skipulagið mitt klúðraðist soldið. Eftir miklar fortölur og samninga náði ég að sannfæra Siggu vinkonu mína til að koma á tónleika með Mammút enda dýrkaði ég seinni plötuna þeirra og hlustaði á hana í tætlur bæði í ár og í fyrra. Við komum allt of seint á tónleikana og ég held ég hafi náð að sjá seinustu 2-3 lögin – sem er alls ekki nóg fyrir menn eins og mig. Fannst hljómburðurinn í Listasafninu auk þess gera afskaplega lítið fyrir mig þar sem ég stóð. Hef séð Mammút nokkrum sinnum á tónleikum en náði ekki alveg að tengja við þessa tónleika.

Hjálmar – Hluti af samningnum sem ég gerði við Siggu var að ef hún kæmi með mér á Mammút þá myndi ég fara með henni á Hjálma. Svo við ákváðum að fara úr Listasafninu og yfir í Hörpu (og misstum þ.a.l. af Vaccines). Þegar við komum í Hörpu voru það hins vegar ekki Hjálmar að spila heldur Hjálmar og einhver annar gaur. Við nenntum því ekki og fórum og fengum okkur að drekka. Ég fékk mér rauðvín blandað í hvítvín, drykkur sem ég mun aldrei fá mér aftur m.v. hvernig líðanin var daginn eftir. Síðan sá ég smá af FM Belfast en var ekki alveg í ástandi fyrir slík hressheit svo ég lét mig hverfa niðrí bæ þar sem hefðbundið pöbbarölt tók við ásamt Bödda Bró.

The Barr Brothers – Þetta voru tónleikar sem ég rambaði inn á á laugardeginum,  en ég hafði aldrei heyrt um þessa hljómsveit áður. En þeir voru ekki lengi að vinna mig á sitt band og tónleikarnir voru mjög fínir og bandið heillandi. Myndi vilja sjá þau aftur hérna.

Stelpur sem kunna að rokka eru töff

Rökkurró: Ég hafði hlustað töluvert mikið á fyrstu plötuna þeirra og varð mjög heillaður. Hafði minna hlustað á seinni plötuna, en flest lögin á tónleikunum voru af henni. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Rökkurró á tónleikum og pottþétt ekki í það síðasta. Mjög flottir tónleikar og mun kraftmeiri en ég hefði getað ímyndað mér.

Retro Stefson – Hafa verið ein uppáhalds hljómsveitin mín í mörg ár, ég sá þau tvisvar á árinu. Fyrst á frábærum útgáfutónleikum í Iðnó og svo í Hörpu á Airwaves. Í bæði skiptin var öskrandi góð stemmning og ég og allir í góðu stuði. Það jaðrar við góða þrekæfingu að fara á tónleika með þeim, slíkur er hamagangurinn. 5 stjörnu performans og ég held að þeir hljóti að verða the next big thing í útlöndum bráðlega.

Retro Stefson heilluðu mig eins og alltaf

Retro Stefson heilluðu mig eins og alltaf

Hermigervill – Sá hann spila í einhverju porti í skítakulda. Vorkenndi puttunum hans mikið, en hann lét það ekki á sig fá og kom fólki í rosalegan dansgír. Skemmtilegar útsetningar hjá honum yfirleitt á íslenskum slögurum sem ég efast um að þessi 75%  gesta Airwaves sem eru útlendingar hafi heyrt áður.

Ásgeir Trausti – Reyndi að sjá hann spila í Norræna Húsinu, en þar var smekkfullt svo ég hvorki sá né heyrði þó ég hafi mætt tiltölulega tímanlega. Gerði því mitt besta til að ná honum í Hörpu og því sá ég alls ekki eftir. Hafði í raun lítið tekið eftir öllu þessu æði í kringum hann enda búinn að vera í útlöndum allt sumarið, en það sem ég hafði heyrt áður lofaði góðu. Og ég varð enn hrifnari eftir að ég sá hann á tónleikunum, bandið mjög þétt og hljómurinn góður (ekki hægt að gera ráð fyrir slíku á Íslandi því miður, en Harpa lofar góðu hvað það varðar). Lögin hans voru líka flest mjög góð. Ásgeir virðist hafa náð að heilla hvern einasta kvenmann í salnum því mér leið á tímabili eins og ég væri staddur í miðju bítlaæðinu, slíkir voru píkuskrækirnir sem ómuðu allt í kringum mig.

Benni Hemm Hemm – Tónleikarnir voru eins konar stund milli stríða hjá mér, ákvað að setjast niður og hvíla lúin bein í hálftómum salnum. Varð nú ekkert yfir mig heillaður af því sem ég sá, þetta fór svona inn um eitt eyrað og út um hitt.

Brennisteinn SigurRósar var magnaður

SigurRós – Ég sá SigurRós í Laugardalshöllinni á sunnudeginum og var þetta í fjórða skipti sem ég sá þá kumpána á tónleikum. Það er alltaf upplifun að fara á tónleika með þeim, og þessir tónleikar voru mikið fyrir augað, tilkomumiklar sýningar fylgdu lögunum. En ég er hins vegar það einfaldur að ég zonaði stóran hluta tónleikanna því mér fannst alveg vanta eitthvað meira grípandi lagasmíðar – lögin runnu svolítið mikið í eitt þarna. Mér leiddist svo sem ekki á tónleikunum en hefði viljað hafa meira grípandi eða hressari lög inn á milli til að þetta yrði ekki jafn einsleitt, ég veit þeir eiga þessi lög til. Þeir spiluðu nýtt lag í lokin, Brennisteinn, en það lag þótti mér rosalega sterkt.

Heilt yfir var ég mjög ánægður með Iceland Airwaves 2012. Þeir tónleikar sem ég náði að sjá almennilega voru allir mjög góðir. Næst ætla ég bara að passa mig að halda mig meira á einum stað svo ég endi ekki í því að missa af meirihluta tónleikanna eins og gerðist bæði á Airwaves og Pukkelpop.

Hvað er árangur í íþróttum?

Ég held það þurfi varla fleiri orð um þetta mál:Image

 

The Road Ahead or The Road Behind
eftir George Joseph Moriarty

Sometimes I think the Fates must
Grin as we denounce and insist
The only reason we can’t win
Is the Fates themselves that miss

Yet there lives on an ancient claim
We win or lose within ourselves
The shining trophies on our shelves
Can never win tomorrow’s game
You and I know deeper down
There’s always a chance to win the crown

But when we fail to give our best
We simply haven’t met the test
Of giving all, and saving none
Until the game is really won

Of showing what is meant by grit
Of fighting on when others quit
Of playing through, not letting up
It’s bearing down that wins the cup
Of taking it and taking more
Until we gain the winning score

Of dreaming there’s a goal ahead
Of hoping when our dreams are dead
Of praying when our hopes have fled
Yet losing, not afraid to fall
If bravely, we have given all

For who can ask more of a man
Than giving all within his span
Giving all, it seems to me
Is not so far from victory

And so the Fates are seldom wrong
No matter how they twist and wind
It is you and I who make our fates
We open up or close the gates
On the road ahead or the road behind.

Sumarið sem stúart

Svalur flugþjónn

Í sól og sumaryl

Seinast þegar ég bloggaði, þá fjallaði ég um ævintýri mín í Íþróttalýðháskóla í Danmörku árið 2009. Núna tveimur árum síðar er annarri svaðilför minni í Danmörku lokið. Ég ákvað nefnilega að vera svolítið flippaður vorið 2011 og sækja um starf sem flugþjónn, hjá litlu íslensk/dönsku flugfélagi sem heitir Primera Air. Ástæðan fyrir því að ég sótti um þetta starf var aðallega af því mig langaði að prófa eitthvað nýtt, lifa í öðru landi, búa og vinnameð tveimur æskuvinum mínum (Mr. Porkhouse og Haltigrum) og svo var erfitt að fá vinnu á Íslandi yfir sumartímann. Ég hef unnið ansi fjölbreytt störf í gegnum tíðina, og því ekki að prófa þetta?

En allavega, til að verða flugþjónn þarf maður að sækja nokkurra vikna námskeið fyrst. Námskeiðið var haldið í Kaupmannahöfn og það var frekar strembið satt best að segja – 3 vikur, tímar frá 8-17, sex daga vikunnar! En námskeiðið gekk vel, skemmtilegir nemendur og skemmtilegir kennarar líka. Ég náði reyndar ekki mikið að blanda geði við þau öll eftir langan dag á námskeiðinu, af því ég bjó í talsverðri fjarlægð frá þeim öllum. Ég kvarta reyndar alls ekki yfir því, ég bjó hjá Andreu, skólasystur minni úr MS í hverfi sem kallast Albertslund, í útjaðri Kaupmannahafnar. Tíminn þar var mjög skemmtilegur, allir sem ég hitti þar voru úber indælir og vildu allt fyrir mann gera, og svo voru náttúrulega nokkur góð teiti haldin þarna 🙂

En eftir að námskeiðinu lauk flutti ég til Vejle, lítils 50þúsund manna bæjar á Jótlandi. Ég flutti inn með Daníeli (Mr. Porkhouse) og Hallgrími (Haltigrum) í fáránlegustu íbúð sem ég hef séð. Íbúðin er 150 fermetrar, sem er hreinlega allt of mikið fyrir okkur þrjá. Sérstaklega þar sem að við höfðum engin húsgögn til að fylla upp í allt þetta rými, auk þess sem íbúðin var sett fáránlega upp – hálfgert völundarhús. Svo eru Danir greinilega ekkert spéhræddir því það eru gluggar á klósettunum! En við keyptum ýmislegt í íbúðina, þar á meðal svaðalegt Bang&Olufsen sjónvarp sem vakti mikla athygli hvar sem það sást.

Okkur gekk misvel að elda, elduðum oft dýrindis mat þegar við tókum okkur til, og stundum ekki jafn mikinn dýrðarmat – þó við höfum tekið okkur til. Þar sem engar voru matreiðslubækurnar og við allir tiltölulega blautir á bakvið eyrun dugði lítið annað en að prufa sig áfram í matgerðinni. Eftirminnilegasta tilraunastarfsemin var án efa vanillujógúrtsávaxtakjúklingadúlleríið hans Hallla, það var ekki merkilegt út af góða bragðinu samt :O Ég hóf alla morgna fyrir flug á því að elda próteinpönnukökur, siður sem ég mæli hiklaust með að fleiri taki upp.

Við vorum svo heppnir að lenda í næst rigningarmesta sumrinu í Danmörku, frá því mælingar hófust fyrir (örugglega) meira en öld síðan. Það var yfirleitt heitt en nánast alltaf ský á himni, sem minnkaði stuðið aðeins en þó ekki of mikið. Í september/október þá kom loksins hitabylgjan sem við höfðum þráð allt sumarið….verst að við vorum allir búnir að flýja baunalandið og komnir í kuldann á klakanum…

Mér fannst flugþjónastarfið vera skemmtilegt, skemmtilegast þótti mér þó án efa allt góða fólkið sem ég vann með og kynntist í flugunum og utan þeirra. Snilldar hópur upp til hópa og sérstaklega góð stemmning í Billund beisinu, það var alltaf hægt að fá fólk í að gera eitthvað sniðugt í frítímanum, þó maður hafi þurft að velja óvenjulegan tíma til þessarra athafna vegna skringilegs vinnutíma flugþjóna…Djamm í miðri viku var bara hinn eðlilegasti hlutur í þessum hópi og allt í góðu með það…

Ég hugsa með miklum hlýhug til þessa flugþjónaævintýris, æðisleg tilbreyting að losna aðeins undan Íslandi og kynnast alveg glás af skemmtilegu liði – á námskeiðinu, í Albertslund og svo Billund-base fólkinu. Mér hefði aldrei dottið í hug að árið 2011 myndi ég verða flugþjónn – hvað þá að ég yrði það með Hallla og Danna af öllum mönnum. En þetta er reynsla sem ég hefði sannarlega ekki viljað vera án

Hér koma svo nokkrar myndir frá seinustu dögunum þarna úti:

This slideshow requires JavaScript.

Brandur Enni H

This slideshow requires JavaScript.

Eins og einhverjir minna dyggu lesenda vita, þá flýði ég kreppuna og volæðið á Íslandi fyrir rúmum tveimur árum, er ég flutti ég í lítinn bæ í Danmörku sem heitir Brönderslev (og bærinn er staðsettur í Limafirði, fyrir þá sem hafa áhuga á landafræði, eða með barnalegan húmor eins og ég). Ástæða flutninganna var sú að ég fór svokallaðan íþrótta-lýðháskóla, sem hetitir NIH (Nordjyllands Idrætshojskole). En eftir dvölina mína í skólanum skrifaði ég stuttan pistil um dvölina mína þar, en hef hvergi birt hann fyrr en núna. Þessi tími sem ég átti í NIH var ógleymanlegur, og vonandi finnst einhverjum gaman að lesa þennan aldna pistil:

Dvölin mín í NIH:

Upphafið

Það var í lok útskriftarársins mins við Menntaskólann við Sund þar sem einhver ónefnd hnáta mætti í skólann til að kynna fyrir okkur íþróttalýðskólann NIH(Nordjyllands Idrætshojskole). Ég hafði aldrei heyrt um þetta áður, en þegar ég hlustaði á kynninguna hennar og skoðaði bæklinginn sá ég strax að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera. Ég hafði ekki verið mjög virkur í íþróttum í nokkur ár, en hef þó alltaf haft gríðarlegan áhuga á þeim og haft gaman af því að stunda þær þegar mér gafst kostur á því. Eftir að hafa rætt við mína nánustu ákvað ég að slá til og sækja um í þennan skóla. Ég fékk svo fljótlega bréf frá skólanum um að umsóknin mín væri samþykkt og ég gæti byrjað í skólanum 4. janúar og þar myndi ég dvelja fram á sumar, eða fram að miðjum júní.
Ég mætti í skólann 1. janúar ásamt vini mínum sem tók nokkuð óvænt þá ákvörðun að koma með mér í skólann. Þar sem vorönnin var ekki formlega byrjuð, vorum við aleinir í þessum stóra skóla fyrstu dagana. Það var ágætt eins langt og það náði en við biðum þó fullir eftirvæntingar eftir því að sjá alla hina nemendurna sem ætluðu sér að stunda nám við skólann. Fyrsta vikan var svo óhefðbundin, en hún fór öll í það að hrista nemendurna saman, þannig að það var farið í ýmsa leiki. Vikan endaði svo á Litlum Ólympíuleikum, þar sem keppt var í óhefðbundnum íþróttagreinum, en búið var að skipta nemendum í „lönd“ þar sem hvert lið bjó til sína eigin einkennisbúninga og jafnvel stuðningsmannalög ef mikil stemmning ríkti í hópnum. Deginum lauk svo með smá teiti þar sem „samlandar“ sátu til borðs við sérstaklega skreytt borð og í góðu glensi – en flest stóru partýin hér hafa eitt ákveðið þema, t.d. ævintýraþema, sumarþema og ólympíuþema og myndast oft sérstök stemmning fyrir vikið.

En eftir þessa skemmtilegu fyrstu viku tóku við nokkrar hefðbundnar vikur. Við fórum í þau íþróttafög sem við höfðum valið okkur, ásamt söngtímum, og þema og umræðutímum. Þar sem ég var svo slappur í dönsku þegar ég mætti til Danaveldis þá var ég settur í svokallaða International tíma, en þar voru þeir nemendur sem voru ekki sleipir í dönskunni. Í þessum tímum voru tveir Íslendingar, fjórir Ungverjar, Ghanamaður og strákur frá Lettlandi. Þarna kynntist ég mínum bestu vinum í skólanum og erum við nú þegar farin að skipuleggja reunion þó skólinn sé ekki enn búinn.

Ferðin mín til Frakklands:

En fyrsta utanlandsferðin, af þremur sem ég fór í, var farin til Frakklands. Stefnan var tekin á að skíða eins og enginn væri morgundagurinn í frönsku ölpunum, og var það gert. Við vorum í frakklandi í eina viku, og lærðum að skíða og snjóbrettast við bestu mögulegu aðstæður. Við höfðum kost á að velja um mismunandi æfingabúðir eða „workshops“ eftir því á hversu hæfileikarík við vorum á skíðum, en einnig var hægt að læra einhver ákveðin „trikk“ eins og að stökkva af stökkpalli. Það var frábært að fá tækifæri til að láta adrenalínið flæða á stökkpöllunum og í brekkunum, og er það klárlega eitthvað sem verður endurtekið einn góðan veðurdag. Eftir langan dag á skíðum voru svo haldnar kvöldvökur eða spilað á spil og var það með eindæmum huggulegt. Eftir frábæra viku var svo haldið í rútu aftur til Danmerkur, en þessi sólarhringur sem rútuferðin tók var skuggalega fljótur að líða, enda góður mórall í mannskapnum eftir vel heppnaða ferð.

Nýjar greinar og maraþon

Fljótlega eftir heimkomuna í skólann áttum við að velja okkur ný íþróttafög, en ég hafði áður verið í badminton, handbolta og að læra að verða einkaþjálfari.  Ég sá fljótt að handbolti var ekki íþrótt fyrir mig, en mikið rosalega var badmintonið skemmtilegt! Svo var mjög gagnlegt að taka einkaþjálfaranámið, og á eflaust eftir að koma sér vel fyrir mig í framtíðinni.

En á þessu nýja tímabili sá ég að hægt væri að velja um að æfa fyrir maraþon, sem færi fram í byrjun maí í þýsku borginni Hannover. Ég ákvað að taka slaginn, og við tóku erfiðar en skemmtilegar hlaupaæfingar þar sem reynt var að gera líkama og sál vel undirbúna undir maraþonið.

Það var svo um 20 manna hópur sem ákvað að lokum að hlaupa maraþonið í þessari fallegu borg, og náðu þau öll að klára maraþonið með glæsibrag, og voru líkamar þeirra allflestra gjörsamlega firrtir orku þegar hlaupinu lauk. Maraþon er mikil þrekraun, og eftir rúma 30 kílómetra fóru að renna á mann tvær grímur, og maður hugsaði um hvurn fjárann maður væri búinn að koma sér í. En maður varð að gjöra svo vel að reyna að hundsa þessar hugsanir og staulast í mark, og það tókst þrátt fyrir allt og ég get sagt með fullri vissu að ég hef aldrei verið jafn uppgefinn á ævinni. En að loknu hlaupinu var maður þreyttur en stoltur maraþonhlaupari. Eftir maraþonið sjálft tók við hvíld, enda ekki mikil orka í að gera neitt af ráði. Daginn eftir var svo haldið heim til litla krúttlega bæjarins okkar, Brönderslev, og seinasta önnin tók við.

Seinustu mánuðirnir

Þar sem veðrið í Danmörku lék við hvurn sinn fingur frá því um páskana og frameftir, liðu seinustu mánuðirnir skuggalega hratt og ávallt glatt á hjalla í skólanum. Hópurinn var svo orðinn enn þéttari og allir orðnir betri vinir, og skilaði það sér vel í dúndrandi hressum partýum og kósý síðkvöldum hér í skólanum. Það var svo lagt af stað í seinustu utanlandsferðina seint um kvöld í lok maí. Ferðinni var heitið til eyjarinnar Lanzarote, á íþróttahótelið La Santa. Allar aðstæður til íþróttaiðkunar eru þar eins og best verður á kosið, og gat maður stundað nánast allar íþróttir sem maður hafði hug á, og svo var að sjálfsögðu hægt að safna smá brúnku við sundlaugarbakkann.

Daginn eftir að við mættum á svæðið var haldin mikil og góð Iron Man keppni, en hún felst í því að synda 3800 m, hjóla 180 km og enda svo á maraþonhlaupi – allt á sama deginum! Það keppti þó enginn í skólanum í Járnkarlinum, en nokkuð stór hópur úr skólanum fór og hjálpaði til við undirbúning keppninnar. Næstseinasta daginn á La Santa hélt skólinn svo sinn eiginn Iron Man, en hægt var að velja um að hlaupa hálfan, einn fjórða eða einn tíunda hluta af venjulegri Iron Man keppni. Þeir sem komu fyrstir í mark í hálfu Iron Man keppninni luku keppni á rétt undir 6 klukkustundum, en það segir sig sjálft að það er ekkert grín að púla í 6 klukkutíma eða meira samfleytt, og því voru það aðeins þeir allra hörðustu sem tóku þátt í því. Nokkrir voru svo staðráðnir í að klára heilan Iron Man einhverntíma í framtíðinni, meðan aðrir sóru þess eið að þetta myndu þeir aldrei gera aftur!

Eftir vel heppnaða ferð til La Santa var svo haldið aftur heim á leið í skólann, og aðeins tvær hefðbundnar vikur, og ein þemavika, eftir af skólanum og voru þær með eindæmum ljúfar eins og allar aðrar vikur hér í skólanum. Ég get með sanni sagt að dvölin mín hér í NIH hafi verið vel heppnuð í flesta staði, og akkúrat það sem að ég þurfti eftir að vera kominn með smá leið á Íslandi og svo var gott að gera eitthvað óhefðbundið áður en ég myndi demba mér í háskólanámið. Ég myndi hiklaust mæla með fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum og vilja prófa eitthvað nýtt, að skella sér í íþróttalýðskóla, og fær NIH toppeinkunn frá mér. Það eina sem ég sé eftir við dvölina í NIH var að ég hefði viljað vera lengur en 6 mánuði!

This slideshow requires JavaScript.

Lyktin á Grensásveginum

Dumla

Dumla, nýstrokkuð smjörskaka.

Hver kannast ekki við það að vera að keyra eða labba á Grensásveginum, nánar tiltekið hjá Skeifunni og finna þennan frábæra ilm sem leggur frá einhverju húsanna í nágrenninu. Það lífgar allavega alltaf pínulítið upp á grámygluna að finna snúðailminn sem berst frá Mylluverksmiðjunni sem er þarna að fjöldaframleiða brauð, snúða og aðra misholla (en vel lyktandi) hluti svo við getum notið þeirra.

Annars eru fleiri góðir hlutir á Grensásveginum. Aðeins ofar var staðsett bakarí sem hét Heildsölubakaríið ef mig minnir rétt (nú er þar annað bakarí). Amma mín og afi áttu heim þar þegar ég var lítill og það var órjúfanlegur partur af góðri heimsókn var að fá smá klink til að kaupa snúð með glassúr, eða sykri – en hið síðarnefnda hef ég því miður hvergi annars staðar séð, en það var allavega einfalt og gott. Og ég get vel trúað því að smjörkökurnar hafi verið nýstrokkaðar, eða Dumlur eins og þær heita á fagmáli.

Fleira gott er á Grensásveginum eins og t.d. Ísbúð Vesturbæjar sem er með útibú sitt þar. Ég er ekki frá því að útibúið sé hreinlega betri en orginallinn, allavega fannst mér bragðarefurinn vera íburðarmeiri þar heldur en á Melnum. Melurinn og Grensan fá allavega þumal upp fyrir góðan ís og ódýran ref!

Þegar ég er að skrifa þetta blogg er ég að átta mig hægt og rólega á því að Grensásinn er stórlega vanmetin gata, en þó svo fræg að þekktur einstaklingur ákvað að kenna sig við hana. Þarna er góður kínverskur veitingastaður sem heitir Tían, Rizzo pizzur eru fínar, PFAFF er skemmtilegasta nafn á búð sem ég hef heyrt.