Háklassahórur

Call girl

Háklassahórur er það sem kallast „call girls“ á ensku – þið gætuð kannast við þær úr þáttunum Secret diary of a call girl. Þær njóta mestu virðingarinnar innan vændisbransans og þær fá hæstu launin – nokkurskonar aðalskonur vændisins. Þær rukka fleiri hundruð dollara fyrir hver mök, en sú upphæð getur orðið mun hærri. Þær hafa árstekjur sem jafnast á við það sem lögfræðingar eða læknar geta státað af. Þær eru betur menntaðar en aðrar hórur, fágaðari og klæða sig í dýr og elegant föt – þær klæða sig frekar upp sem viðskiptakonur heldur en hórur. Þær móðgast ef fólk kemur fram við þær eins og hverja aðra götuhóru, margar þeirra nota ekki einu sinni orðið vændiskona um sjálfa sig. Þær þykjast jafnvel vera kærustur kúnnans á almannafæri. Þær hafa líka ákveðið siðferði, og reyna ekki að féflétta kúnnan eða koma upp um hver hann er – en oft eru þetta hátt settir menn sem leita til þeirra.

En lífið er ekki alveg fullkomið fyrir þessar konur. Þegar þær eru með kúnna þá verða þær að hlýða því sem hann segir, jafnvel ef hann er súísædal paranóju geðklofasjúklingur með bleyjufetish. Kúnninn kaupir afnot af konunni í ákveðinn tíma, og hún verður að bjóða honum upp á það sem hann vill.

Auglýsingar

Vændi

Kona selur sig

Ég er að skrifa ritgerð um vændi, mjög áhugavert allt

saman. Í þekkingarleit minni hef ég meðal annars komist að því að vændiskonur hafa ekki meiri þörf fyrir samneyti við karlmenn en aðrar konur, vændi er ekki elsta atvinnugreinin (prestadómur er sú elsta), flestar vændiskonur eru ekki eiturlyfjafíklar – þó vissulega sé ákveðinn hluti þeirra það.

Það eru til nokkrar tegundir vændiskvenna. Fyrst ber að nefna götuhórur, en þær eru þær lægst settu. Þetta er hórurnar sem bíða eftir kúnnum úti á götuhorni og fara svo upp á hótelherbergi til að sinna kúnnanum. Oft bjóða þeir mönnum upp á einn snöggan í bílsætinu. Þar sem þær fá svo illa borgað reyna þær að ná sem flestum kúnnum á sem stystum tíma – hótelþjónustan tekur um 15-30 mínútur, en það er sannkölluð hraðþjónusta í bílaviðskiptunum, en þær gera sitt besta til að vera ekki lengur en 15 mínútur með kúnnanum. Þessar vændiskonur eru líklegastar til að vera misnotaðar – af kúnnum, pimpum og jafnvel lögreglunni. Þær neyðast til þess að taka þátt í grófustu kynlífsathöfnunum og lenda gjarnan í því að vera rændar, barðar eða þeim nauðgað. Þær sem ungar eru í bransanum (undir 16 ára) eru líklegastar til að lenda í þessum ófögnuði.

Í næsta bloggi mun ég fjalla um aðrar tegundir vændis.

Upprisa bloggsins

Eftir fjögurra ára hlé hef ég ákveðið að demba mér aftur á ritvöllin, nú á nýjum stað og á nýjum tíma. Það getur verið ágætt að létta á sér hér á gagnvarpinu, á milli þess sem maður skoðar Facebook og lærir. Margir vilja meina að feisið hafi komið í staðinn fyrir blogg, en ég ætla að reyna að afsanna það, enda er ég mikið gefinn fyrir sannanir, sérstaklega í stærðfræði.Ég ætla að reyna að hafa hvert blogg lengra en meðal fésbókarstatus – annars getur maður nú alveg eins sleppt þessu.

Ég mun fjalla um það sem mér dettur í hug, en oftast mun ég örugglega færa nördisma nær hinum venjulega notanda og tala tæpitungulaust, með miklu orðagjálfri um menn en engin málefni. Ég mun stunda það óspart að blogga um fréttir og skrifa eina hnitmiðaða setningu undir, enda er það það sem almúginn vill samkvæmt moggablogginu…eða ekki.

Ég efast um að ég nenni að tala um pólitík, Icesave, Davíð Oddson eða önnur hneykslanleg málefni sem allir eru að spá í, en enginn vil heyra um. Fólk getur því fengið sinn daglega skammt af neikvæðni annarsstaðar – það getur meðal annars stofnað moggablogg, lesið Eyjuna, farið á ættarmót eða horft á Alþingi).

Einhverjar spurningar? …..  [smá vandræðaleg þögn]

Takk fyrir

p.s. Ég vona að þessi færsla verði ekki sorgleg sönnun þess að bloggið sé dautt – ég mun koma með nýjar færslur von bráðar. Ef ekki, þá megið þið jarðsetja bloggið eins og það leggur sig.

p.s. 2. Á maður að skrifa stóran staf á eftir bandstriki í miðri setningu?  Dæmi 1: Neikvæðir aðilar eru margir – hundspottið, Ólafur Liljurós og Papírus Maximus. Dæmi 2: Neikvæðir aðilar eru margir – Sjabadúí, gamligamli og Sjón.