Þrautir sjóræningja

Ég byrjaði að horfa á myndina I’m not there, en það er mynd sem fjallar um sjálfan Bob Dylan, 5 leikarar (þar af ein kona) leika kappann í myndinni. Ég var búinn að horfa á hálftíma af myndinni, fannst hún vægast sagt ruglingsleg. Hún byrjaði á því að einhverjir blaðamenn voru að kalla Bob Dylan herra Quinn. Svo var skipt snögglega yfir í villta vestrið eða eitthvað álíka, einhverjir hestakallar og fleira og svo virtist sem allir vildu flytja úr bænum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig villta vestrið tengdis Dylan á nokkurn hátt, og ekki bætti úr skák að allt í einu kom „nýr“ Dylan inn í myndina sem fór að bulla eitthvað. Ég taldi að þessi mynd væri bara í anda Dylan, mjög torskilin.

En þolinmæði mín til þessarar myndar var á þrotum. Ég slökkti því á myndinni eftir hálftíma áhorf. Ég uppgötvaði svo að ég hafði byrjað að horfa á seinni hluta myndarinnar!

Auglýsingar

Leyndardómar skýrslumálastofnunar

Hóruhús (brothel) er staður þar sem vændiskonurnar deila tekjum sínum með yfirmönnum staðarins – oft 50/50. Maddamann, eða eigandi staðarins sér um að redda kúnnum. Þær ganga úr skugga um að kúnninn sé ekki lögga í dulargervi og fleira í þeim dúr. Kúninn getur svo valið úr flokki vændiskvenna á staðnum. Vændiskonurnar starfa í mesta lagi í 5 ár á hverjum stað, því menn sem sækja hóruhús vilja hafa fjölbreytni í rekkjunautavali.

Það er öruggara fyrir vændiskonur að starfa á hóruhúsi. Þær eiga líka í nánari samskiptum við aðrar konur, og eignast jafnvel góðar vinlkonur – en það er sjaldgæft hjá götuhórum. Á móti kemur að hórur á hóruhúsi ráða ekki sínum vinnutíma sjálfar, og þær fá ekki allt kaupið til sín. Þær vændiskonur sem starfa sem „fylgdarkonur“ eða escorts fá hæstu launin eða þjórféð, en þær fara í hús eða á hótel þar sem kúninn bíður þeirra. Það getur hins vegar verið hættulegur leikur að leika, þær eru mjög berskjaldaðar á þessum slóðum og þær geta jafnvel verið drepnar.

p.s. Hefur einhver séð hina frægu mynd Leyndardóma skýrslumálastofnunar? Ekki ég, fyrir mér er hún enn mikill leyndardómur með skemmtilegt nafn

Tölvuleikjanostalgía – NES og SegaMega

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góður í tölvuleikjum. Ég held reyndar að það séu algjörar undantekningar ef ég næ að klára heilan tölvuleik. Fyrsta tölvan sem ég man eftir að hafa leikið mér í var eldgamla Nintendo, eða NES. Eftirminnilegasti leikurinn þaðan var boxleikur sem kenndur var við Mike Tyson. Svo var annar leikur sem að fjallaði um Nemó sem var í draumalandi fullu af sveppum og skrítnu liði. Svo átti maður að sjálfsögðu Super Mario Bros 1 og 3, og að sjálfsögðu Duck Hunt – leikinn með byssunni. Maggi frændi átti Mario númer 2 og einhvern leik sem innihélt 100 leiki. Ófá skiptin sem maður lék sér á þeim bænum, sællar minningar.

Ég keypti mér mína fyrstu leikjatölvu 7 ára gamall, en það var Sega Mega Drive II. Ég átti 2 leiki í hana í byrjun og aldrei meira en það. En annar þessara leikja lifir enn sem ein besta skemmtunin úr minni barnæsku. Þetta var leikurinn Sonic the hedgehog 2. Ég spilaði leikinn margoft, bæði heima hjá mér og hjá Ole, en ég held ég hafi aldrei komist lengra en borð 7. Ástæðan – það var ekki hægt að seiva! Bölvað, maður þurfti alltaf að byrja upp á nýtt í hvert einasta skipti sem maður vildi spila leikinn, ótrúlegt hvað maður nennti samt að spila þessi örfáu borð sem maður hafði tíma í hverju sinni. Ole átti svo böns af Sega leikjum, svo þangað leitaði maður ef maður vildi prófa eitthvað nýtt. Mortal Kombat 2 var að sjálfsögðu vinsæll hjá okkur ofbeldissjúklingunum, en hann var hægt að spila hjá svindlaranum í Seljavídjó og hjá Ole. Pálmi átti svo Fifa (96 væntanlega) og hann var spilaður svo mikið að það rauk úr tölvunni og fótboltahæfileikarnir lympuðust niður á sama tíma.