Brandur Enni H

This slideshow requires JavaScript.

Eins og einhverjir minna dyggu lesenda vita, þá flýði ég kreppuna og volæðið á Íslandi fyrir rúmum tveimur árum, er ég flutti ég í lítinn bæ í Danmörku sem heitir Brönderslev (og bærinn er staðsettur í Limafirði, fyrir þá sem hafa áhuga á landafræði, eða með barnalegan húmor eins og ég). Ástæða flutninganna var sú að ég fór svokallaðan íþrótta-lýðháskóla, sem hetitir NIH (Nordjyllands Idrætshojskole). En eftir dvölina mína í skólanum skrifaði ég stuttan pistil um dvölina mína þar, en hef hvergi birt hann fyrr en núna. Þessi tími sem ég átti í NIH var ógleymanlegur, og vonandi finnst einhverjum gaman að lesa þennan aldna pistil:

Dvölin mín í NIH:

Upphafið

Það var í lok útskriftarársins mins við Menntaskólann við Sund þar sem einhver ónefnd hnáta mætti í skólann til að kynna fyrir okkur íþróttalýðskólann NIH(Nordjyllands Idrætshojskole). Ég hafði aldrei heyrt um þetta áður, en þegar ég hlustaði á kynninguna hennar og skoðaði bæklinginn sá ég strax að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera. Ég hafði ekki verið mjög virkur í íþróttum í nokkur ár, en hef þó alltaf haft gríðarlegan áhuga á þeim og haft gaman af því að stunda þær þegar mér gafst kostur á því. Eftir að hafa rætt við mína nánustu ákvað ég að slá til og sækja um í þennan skóla. Ég fékk svo fljótlega bréf frá skólanum um að umsóknin mín væri samþykkt og ég gæti byrjað í skólanum 4. janúar og þar myndi ég dvelja fram á sumar, eða fram að miðjum júní.
Ég mætti í skólann 1. janúar ásamt vini mínum sem tók nokkuð óvænt þá ákvörðun að koma með mér í skólann. Þar sem vorönnin var ekki formlega byrjuð, vorum við aleinir í þessum stóra skóla fyrstu dagana. Það var ágætt eins langt og það náði en við biðum þó fullir eftirvæntingar eftir því að sjá alla hina nemendurna sem ætluðu sér að stunda nám við skólann. Fyrsta vikan var svo óhefðbundin, en hún fór öll í það að hrista nemendurna saman, þannig að það var farið í ýmsa leiki. Vikan endaði svo á Litlum Ólympíuleikum, þar sem keppt var í óhefðbundnum íþróttagreinum, en búið var að skipta nemendum í „lönd“ þar sem hvert lið bjó til sína eigin einkennisbúninga og jafnvel stuðningsmannalög ef mikil stemmning ríkti í hópnum. Deginum lauk svo með smá teiti þar sem „samlandar“ sátu til borðs við sérstaklega skreytt borð og í góðu glensi – en flest stóru partýin hér hafa eitt ákveðið þema, t.d. ævintýraþema, sumarþema og ólympíuþema og myndast oft sérstök stemmning fyrir vikið.

En eftir þessa skemmtilegu fyrstu viku tóku við nokkrar hefðbundnar vikur. Við fórum í þau íþróttafög sem við höfðum valið okkur, ásamt söngtímum, og þema og umræðutímum. Þar sem ég var svo slappur í dönsku þegar ég mætti til Danaveldis þá var ég settur í svokallaða International tíma, en þar voru þeir nemendur sem voru ekki sleipir í dönskunni. Í þessum tímum voru tveir Íslendingar, fjórir Ungverjar, Ghanamaður og strákur frá Lettlandi. Þarna kynntist ég mínum bestu vinum í skólanum og erum við nú þegar farin að skipuleggja reunion þó skólinn sé ekki enn búinn.

Ferðin mín til Frakklands:

En fyrsta utanlandsferðin, af þremur sem ég fór í, var farin til Frakklands. Stefnan var tekin á að skíða eins og enginn væri morgundagurinn í frönsku ölpunum, og var það gert. Við vorum í frakklandi í eina viku, og lærðum að skíða og snjóbrettast við bestu mögulegu aðstæður. Við höfðum kost á að velja um mismunandi æfingabúðir eða „workshops“ eftir því á hversu hæfileikarík við vorum á skíðum, en einnig var hægt að læra einhver ákveðin „trikk“ eins og að stökkva af stökkpalli. Það var frábært að fá tækifæri til að láta adrenalínið flæða á stökkpöllunum og í brekkunum, og er það klárlega eitthvað sem verður endurtekið einn góðan veðurdag. Eftir langan dag á skíðum voru svo haldnar kvöldvökur eða spilað á spil og var það með eindæmum huggulegt. Eftir frábæra viku var svo haldið í rútu aftur til Danmerkur, en þessi sólarhringur sem rútuferðin tók var skuggalega fljótur að líða, enda góður mórall í mannskapnum eftir vel heppnaða ferð.

Nýjar greinar og maraþon

Fljótlega eftir heimkomuna í skólann áttum við að velja okkur ný íþróttafög, en ég hafði áður verið í badminton, handbolta og að læra að verða einkaþjálfari.  Ég sá fljótt að handbolti var ekki íþrótt fyrir mig, en mikið rosalega var badmintonið skemmtilegt! Svo var mjög gagnlegt að taka einkaþjálfaranámið, og á eflaust eftir að koma sér vel fyrir mig í framtíðinni.

En á þessu nýja tímabili sá ég að hægt væri að velja um að æfa fyrir maraþon, sem færi fram í byrjun maí í þýsku borginni Hannover. Ég ákvað að taka slaginn, og við tóku erfiðar en skemmtilegar hlaupaæfingar þar sem reynt var að gera líkama og sál vel undirbúna undir maraþonið.

Það var svo um 20 manna hópur sem ákvað að lokum að hlaupa maraþonið í þessari fallegu borg, og náðu þau öll að klára maraþonið með glæsibrag, og voru líkamar þeirra allflestra gjörsamlega firrtir orku þegar hlaupinu lauk. Maraþon er mikil þrekraun, og eftir rúma 30 kílómetra fóru að renna á mann tvær grímur, og maður hugsaði um hvurn fjárann maður væri búinn að koma sér í. En maður varð að gjöra svo vel að reyna að hundsa þessar hugsanir og staulast í mark, og það tókst þrátt fyrir allt og ég get sagt með fullri vissu að ég hef aldrei verið jafn uppgefinn á ævinni. En að loknu hlaupinu var maður þreyttur en stoltur maraþonhlaupari. Eftir maraþonið sjálft tók við hvíld, enda ekki mikil orka í að gera neitt af ráði. Daginn eftir var svo haldið heim til litla krúttlega bæjarins okkar, Brönderslev, og seinasta önnin tók við.

Seinustu mánuðirnir

Þar sem veðrið í Danmörku lék við hvurn sinn fingur frá því um páskana og frameftir, liðu seinustu mánuðirnir skuggalega hratt og ávallt glatt á hjalla í skólanum. Hópurinn var svo orðinn enn þéttari og allir orðnir betri vinir, og skilaði það sér vel í dúndrandi hressum partýum og kósý síðkvöldum hér í skólanum. Það var svo lagt af stað í seinustu utanlandsferðina seint um kvöld í lok maí. Ferðinni var heitið til eyjarinnar Lanzarote, á íþróttahótelið La Santa. Allar aðstæður til íþróttaiðkunar eru þar eins og best verður á kosið, og gat maður stundað nánast allar íþróttir sem maður hafði hug á, og svo var að sjálfsögðu hægt að safna smá brúnku við sundlaugarbakkann.

Daginn eftir að við mættum á svæðið var haldin mikil og góð Iron Man keppni, en hún felst í því að synda 3800 m, hjóla 180 km og enda svo á maraþonhlaupi – allt á sama deginum! Það keppti þó enginn í skólanum í Járnkarlinum, en nokkuð stór hópur úr skólanum fór og hjálpaði til við undirbúning keppninnar. Næstseinasta daginn á La Santa hélt skólinn svo sinn eiginn Iron Man, en hægt var að velja um að hlaupa hálfan, einn fjórða eða einn tíunda hluta af venjulegri Iron Man keppni. Þeir sem komu fyrstir í mark í hálfu Iron Man keppninni luku keppni á rétt undir 6 klukkustundum, en það segir sig sjálft að það er ekkert grín að púla í 6 klukkutíma eða meira samfleytt, og því voru það aðeins þeir allra hörðustu sem tóku þátt í því. Nokkrir voru svo staðráðnir í að klára heilan Iron Man einhverntíma í framtíðinni, meðan aðrir sóru þess eið að þetta myndu þeir aldrei gera aftur!

Eftir vel heppnaða ferð til La Santa var svo haldið aftur heim á leið í skólann, og aðeins tvær hefðbundnar vikur, og ein þemavika, eftir af skólanum og voru þær með eindæmum ljúfar eins og allar aðrar vikur hér í skólanum. Ég get með sanni sagt að dvölin mín hér í NIH hafi verið vel heppnuð í flesta staði, og akkúrat það sem að ég þurfti eftir að vera kominn með smá leið á Íslandi og svo var gott að gera eitthvað óhefðbundið áður en ég myndi demba mér í háskólanámið. Ég myndi hiklaust mæla með fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum og vilja prófa eitthvað nýtt, að skella sér í íþróttalýðskóla, og fær NIH toppeinkunn frá mér. Það eina sem ég sé eftir við dvölina í NIH var að ég hefði viljað vera lengur en 6 mánuði!

This slideshow requires JavaScript.

Auglýsingar

3 thoughts on “Brandur Enni H

  1. Það er ekkert má mikið sem var gert á þessu hálfa ári! Hljómar eins og þetta hafi verið ótrúlega skemmtileg ferð eða skólaönn og örugglega frábær lífsreynsla 😀 Myndi samt ekki meika þessa Iron man keppni, hún hljómar eins og hreint hell :s En skemmtileg lesning, gaman að fá að heyra hvað þú ert ´búin að vera gera af þér frændi 😉

  2. Kannast ekkert við það 😉 Jú gleymdi kannski að segja söguna þegar við Arnar héldum að Loie skólastjóri væri húsvörðurinn í NIH, og skyldum ekkert af hverju hann var að halda ræðu fyrsta daginn okkar í skólanum :p

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s