Sumarið sem stúart

Svalur flugþjónn

Í sól og sumaryl

Seinast þegar ég bloggaði, þá fjallaði ég um ævintýri mín í Íþróttalýðháskóla í Danmörku árið 2009. Núna tveimur árum síðar er annarri svaðilför minni í Danmörku lokið. Ég ákvað nefnilega að vera svolítið flippaður vorið 2011 og sækja um starf sem flugþjónn, hjá litlu íslensk/dönsku flugfélagi sem heitir Primera Air. Ástæðan fyrir því að ég sótti um þetta starf var aðallega af því mig langaði að prófa eitthvað nýtt, lifa í öðru landi, búa og vinnameð tveimur æskuvinum mínum (Mr. Porkhouse og Haltigrum) og svo var erfitt að fá vinnu á Íslandi yfir sumartímann. Ég hef unnið ansi fjölbreytt störf í gegnum tíðina, og því ekki að prófa þetta?

En allavega, til að verða flugþjónn þarf maður að sækja nokkurra vikna námskeið fyrst. Námskeiðið var haldið í Kaupmannahöfn og það var frekar strembið satt best að segja – 3 vikur, tímar frá 8-17, sex daga vikunnar! En námskeiðið gekk vel, skemmtilegir nemendur og skemmtilegir kennarar líka. Ég náði reyndar ekki mikið að blanda geði við þau öll eftir langan dag á námskeiðinu, af því ég bjó í talsverðri fjarlægð frá þeim öllum. Ég kvarta reyndar alls ekki yfir því, ég bjó hjá Andreu, skólasystur minni úr MS í hverfi sem kallast Albertslund, í útjaðri Kaupmannahafnar. Tíminn þar var mjög skemmtilegur, allir sem ég hitti þar voru úber indælir og vildu allt fyrir mann gera, og svo voru náttúrulega nokkur góð teiti haldin þarna 🙂

En eftir að námskeiðinu lauk flutti ég til Vejle, lítils 50þúsund manna bæjar á Jótlandi. Ég flutti inn með Daníeli (Mr. Porkhouse) og Hallgrími (Haltigrum) í fáránlegustu íbúð sem ég hef séð. Íbúðin er 150 fermetrar, sem er hreinlega allt of mikið fyrir okkur þrjá. Sérstaklega þar sem að við höfðum engin húsgögn til að fylla upp í allt þetta rými, auk þess sem íbúðin var sett fáránlega upp – hálfgert völundarhús. Svo eru Danir greinilega ekkert spéhræddir því það eru gluggar á klósettunum! En við keyptum ýmislegt í íbúðina, þar á meðal svaðalegt Bang&Olufsen sjónvarp sem vakti mikla athygli hvar sem það sást.

Okkur gekk misvel að elda, elduðum oft dýrindis mat þegar við tókum okkur til, og stundum ekki jafn mikinn dýrðarmat – þó við höfum tekið okkur til. Þar sem engar voru matreiðslubækurnar og við allir tiltölulega blautir á bakvið eyrun dugði lítið annað en að prufa sig áfram í matgerðinni. Eftirminnilegasta tilraunastarfsemin var án efa vanillujógúrtsávaxtakjúklingadúlleríið hans Hallla, það var ekki merkilegt út af góða bragðinu samt :O Ég hóf alla morgna fyrir flug á því að elda próteinpönnukökur, siður sem ég mæli hiklaust með að fleiri taki upp.

Við vorum svo heppnir að lenda í næst rigningarmesta sumrinu í Danmörku, frá því mælingar hófust fyrir (örugglega) meira en öld síðan. Það var yfirleitt heitt en nánast alltaf ský á himni, sem minnkaði stuðið aðeins en þó ekki of mikið. Í september/október þá kom loksins hitabylgjan sem við höfðum þráð allt sumarið….verst að við vorum allir búnir að flýja baunalandið og komnir í kuldann á klakanum…

Mér fannst flugþjónastarfið vera skemmtilegt, skemmtilegast þótti mér þó án efa allt góða fólkið sem ég vann með og kynntist í flugunum og utan þeirra. Snilldar hópur upp til hópa og sérstaklega góð stemmning í Billund beisinu, það var alltaf hægt að fá fólk í að gera eitthvað sniðugt í frítímanum, þó maður hafi þurft að velja óvenjulegan tíma til þessarra athafna vegna skringilegs vinnutíma flugþjóna…Djamm í miðri viku var bara hinn eðlilegasti hlutur í þessum hópi og allt í góðu með það…

Ég hugsa með miklum hlýhug til þessa flugþjónaævintýris, æðisleg tilbreyting að losna aðeins undan Íslandi og kynnast alveg glás af skemmtilegu liði – á námskeiðinu, í Albertslund og svo Billund-base fólkinu. Mér hefði aldrei dottið í hug að árið 2011 myndi ég verða flugþjónn – hvað þá að ég yrði það með Hallla og Danna af öllum mönnum. En þetta er reynsla sem ég hefði sannarlega ekki viljað vera án

Hér koma svo nokkrar myndir frá seinustu dögunum þarna úti:

This slideshow requires JavaScript.

Auglýsingar