Tónlistaruppgjör Biggans 2012

Allir sem vilja láta taka sig alvarlega koma með uppgjör yfir árið, hér er mitt, en þessi fyrsti hluti fjallar um tónlistarlegu hlið ársins 2012

Plöturnar:

Ég hef hlustað talsvert á tónlist í ár líkt og ég hef alltaf gert og kíkt á tvær tónlistarhátíðir. Hins vegar hef ég lítið sem ekkert kynnt mér það heitasta í erlendri tónlist – ég held ég geti varla nefnt nýja erlenda plötu sem ég hlustaði á af einhverju viti í ár. En ný íslensk tónlist hefur fengið að hljóma þeim mun oftar. Þær plötur sem hafa oftast ratað á fóninn eru þær 3 plötur sem hafa toppað flesta lista gagnrýnenda; Exorcise með hljómsveitinni Tilbury, Retro Stefson með Retro Stefson, og Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta. Auk þessa þriggja hefur stuttskífa Samaris, Stofnar Falla hljómað mjög reglulega. Árið 2012 var gjöfult í íslenskri tónlist, en ég veit ekki með þá erlendu – er erlenda rokkið kannski dautt eftir allt saman? Ég var allavega farinn að hlusta ótæpilega mikið á kántrý í lok árs, en slíkt gerði faðir minn meðan rokkið var í lægð og mér skilst að Arnar Eggert tónlistargagnrýnandi hafi farið sömuleið.

Stone Roses og Pukkelpop:

Rennibrautin sem olli því að ég missti af Hot Chip

Rennibrautin sem olli því að ég missti af Hot Chip

Ég fór svo á nokkra tónleika og tvær tónlistarhátíðir á árinu. Ég fór á frábæra endurkomu tónleika með hljómsveitinni Stone Roses í Barcelona, en ég hafði dýrkað og dáð hljómsveitina í mörg ár og var búinn að bíða endurkomu þeirra lengi. Þeir stóðu sannarlega undir væntingum í þetta skiptið.

Ég sá þá svo aftur á  tónlistarhátíðinni Pukkelpop í Belgíu, en þangað fór ég ásamt mörgum af vinum mínum. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert rosalega heillaður af line-öppinu á hátíðinni við fyrstu sýn, en ég lét til leiðast að fara með. Hátíðin var hins vegar mjög fín. Það var þó þannig að það misfórst eitthvað að sjá helstu böndin sem mig langaði að sjá, og ástæðurnar fyrir því að sjá böndin ekki voru vægast sagt misgóðar. Stundum þurfti maður að gera málamiðlanir og fara þar em vinirnir voru að fara. Við misstum af einhverjum tónleikum því við vorum of sein að koma á svæðið og stundum var ég of upptekinn við að renna sér á sápubraut til að fara á tónleika – eftirá að hyggja kannski ekki besta ákvörðun í mínu lífi.

Ég held að Keane hafi átt bestu tónleika hátíðarinnar, bjóst alls ekki við því en tónlistin þeirra smellpassaði einhvern veginn inn í steikjandi hitann sem var á hátíðinni. Annars fannst mér oft vanta upp á stemmninguna á tónleikunum á Pukkelpop, kannski var það 36°c hitinn sem hafði þar áhrif, en ég upplifiði það allavega þannig að fólk hafi ekki verið mikið á nótunum á flestum tónleikanna.

Síðan fór ég á tónleika með engum öðrum en Paul McCartney í Danmörku…eða nei, hann andskotaðist til að hætta við tónleikana á seinustu stundu! Ég held að ég hafi aldrei verið jafn spenntur fyrir neinum tónleikum á ævinni, svo svekkelsið var ansi hreint mikið þegar hann afboðaði sig. Það er vonandi að ég nái að sjá kallinn áður en hann dregur sig í hlé, en hann varð stjötugur í ár.

Iceland Airwaves:

Svona einhvern veginn leit huldukonan góða út

Það gerðust svo undur og stórmerki í lok október. Ég var á gangi í ógeðslegu veðri, frá Serrano á Hringbrautinni og á leiðinni upp í Háskóla til að læra. Venjulega fer ég yfir götuljósin, en í þetta skiptið ákvað ég frekar að labba yfir brúna. Og sem betur fer gerði ég það. Því þarna hjá brúnni var kona sem hafði staldrað við eins og hún væri að leita að einhverju. Og þar sem Iceland Airwaves var í gangi (og venjulegir Íslendingar láta ekki sjá sig úti)  datt mér í hug að hún gæti verið að leita að tónleikastað. Sem og hún var, hún var að leita að Norræna húsinu, sem er þarna nokkur hundruð metra í burtu. Ég benti henni á hvar það væri, talaði örlítið við hana um Airwaves hátíðina og gerði mig tilbúinn að rölta mína leið. En þá spyr hún mig hvort að mig vanti ekki miða á hátíðina. Ég sagðist ætla að sjá einhverja tónleika off-venue, annars hefði ég ekki miða. Þá bauðst hún hreinlega til að gefa mér eitt stykki miða, af því ég hafði bent henni á hvar Norræna húsið væri! Ég fór með þessari konu á tónleika með Guðríð Hansen, færeyskri söngkonu sem ég heillaðist mikið af þarna. Síðan kvaddi ég þessa ókunnugu konu, og hefur aldrei spurst til hennar síðar.

En rosalega er ég henni þakklátur! Ég var kominn með miða á Airwaves og SigurRós, no strings attached. Það riðlaði soldið dagskránni minni, ákvað að sleppa flestum af þessum Off-venue tónleikum og einbeita mér að hinu sem selt væri inn á. Miðann fékk ég um föstudagsmorguninn, en hér kemur örstutt yfirlit yfir það helsta sem ég sá:

Of monsters and man: Ætlaði að gera heiðarlega tilraun til að sjá þau spila á föstudeginum en þar sem það var u.þ.b. 800 manna röð á tónleikastað sem

Svona u.þ.b. var röðin á Of Monsters and Man

rúmar eflaust um 100 manns ákvað ég að gefast upp og fara eitthvert annað. Endaði á að rölta um miðbæinn í blindbyl og sjá lítið sem ekkert merkilegt.

Mammút – Á föstudeginum langaði mig að sjá svo margt, en það endaði eiginlega á því að ég sá ekki neitt almennilega. Mammút var ein af þessum hljómsveitum þar sem skipulagið mitt klúðraðist soldið. Eftir miklar fortölur og samninga náði ég að sannfæra Siggu vinkonu mína til að koma á tónleika með Mammút enda dýrkaði ég seinni plötuna þeirra og hlustaði á hana í tætlur bæði í ár og í fyrra. Við komum allt of seint á tónleikana og ég held ég hafi náð að sjá seinustu 2-3 lögin – sem er alls ekki nóg fyrir menn eins og mig. Fannst hljómburðurinn í Listasafninu auk þess gera afskaplega lítið fyrir mig þar sem ég stóð. Hef séð Mammút nokkrum sinnum á tónleikum en náði ekki alveg að tengja við þessa tónleika.

Hjálmar – Hluti af samningnum sem ég gerði við Siggu var að ef hún kæmi með mér á Mammút þá myndi ég fara með henni á Hjálma. Svo við ákváðum að fara úr Listasafninu og yfir í Hörpu (og misstum þ.a.l. af Vaccines). Þegar við komum í Hörpu voru það hins vegar ekki Hjálmar að spila heldur Hjálmar og einhver annar gaur. Við nenntum því ekki og fórum og fengum okkur að drekka. Ég fékk mér rauðvín blandað í hvítvín, drykkur sem ég mun aldrei fá mér aftur m.v. hvernig líðanin var daginn eftir. Síðan sá ég smá af FM Belfast en var ekki alveg í ástandi fyrir slík hressheit svo ég lét mig hverfa niðrí bæ þar sem hefðbundið pöbbarölt tók við ásamt Bödda Bró.

The Barr Brothers – Þetta voru tónleikar sem ég rambaði inn á á laugardeginum,  en ég hafði aldrei heyrt um þessa hljómsveit áður. En þeir voru ekki lengi að vinna mig á sitt band og tónleikarnir voru mjög fínir og bandið heillandi. Myndi vilja sjá þau aftur hérna.

Stelpur sem kunna að rokka eru töff

Rökkurró: Ég hafði hlustað töluvert mikið á fyrstu plötuna þeirra og varð mjög heillaður. Hafði minna hlustað á seinni plötuna, en flest lögin á tónleikunum voru af henni. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Rökkurró á tónleikum og pottþétt ekki í það síðasta. Mjög flottir tónleikar og mun kraftmeiri en ég hefði getað ímyndað mér.

Retro Stefson – Hafa verið ein uppáhalds hljómsveitin mín í mörg ár, ég sá þau tvisvar á árinu. Fyrst á frábærum útgáfutónleikum í Iðnó og svo í Hörpu á Airwaves. Í bæði skiptin var öskrandi góð stemmning og ég og allir í góðu stuði. Það jaðrar við góða þrekæfingu að fara á tónleika með þeim, slíkur er hamagangurinn. 5 stjörnu performans og ég held að þeir hljóti að verða the next big thing í útlöndum bráðlega.

Retro Stefson heilluðu mig eins og alltaf

Retro Stefson heilluðu mig eins og alltaf

Hermigervill – Sá hann spila í einhverju porti í skítakulda. Vorkenndi puttunum hans mikið, en hann lét það ekki á sig fá og kom fólki í rosalegan dansgír. Skemmtilegar útsetningar hjá honum yfirleitt á íslenskum slögurum sem ég efast um að þessi 75%  gesta Airwaves sem eru útlendingar hafi heyrt áður.

Ásgeir Trausti – Reyndi að sjá hann spila í Norræna Húsinu, en þar var smekkfullt svo ég hvorki sá né heyrði þó ég hafi mætt tiltölulega tímanlega. Gerði því mitt besta til að ná honum í Hörpu og því sá ég alls ekki eftir. Hafði í raun lítið tekið eftir öllu þessu æði í kringum hann enda búinn að vera í útlöndum allt sumarið, en það sem ég hafði heyrt áður lofaði góðu. Og ég varð enn hrifnari eftir að ég sá hann á tónleikunum, bandið mjög þétt og hljómurinn góður (ekki hægt að gera ráð fyrir slíku á Íslandi því miður, en Harpa lofar góðu hvað það varðar). Lögin hans voru líka flest mjög góð. Ásgeir virðist hafa náð að heilla hvern einasta kvenmann í salnum því mér leið á tímabili eins og ég væri staddur í miðju bítlaæðinu, slíkir voru píkuskrækirnir sem ómuðu allt í kringum mig.

Benni Hemm Hemm – Tónleikarnir voru eins konar stund milli stríða hjá mér, ákvað að setjast niður og hvíla lúin bein í hálftómum salnum. Varð nú ekkert yfir mig heillaður af því sem ég sá, þetta fór svona inn um eitt eyrað og út um hitt.

Brennisteinn SigurRósar var magnaður

SigurRós – Ég sá SigurRós í Laugardalshöllinni á sunnudeginum og var þetta í fjórða skipti sem ég sá þá kumpána á tónleikum. Það er alltaf upplifun að fara á tónleika með þeim, og þessir tónleikar voru mikið fyrir augað, tilkomumiklar sýningar fylgdu lögunum. En ég er hins vegar það einfaldur að ég zonaði stóran hluta tónleikanna því mér fannst alveg vanta eitthvað meira grípandi lagasmíðar – lögin runnu svolítið mikið í eitt þarna. Mér leiddist svo sem ekki á tónleikunum en hefði viljað hafa meira grípandi eða hressari lög inn á milli til að þetta yrði ekki jafn einsleitt, ég veit þeir eiga þessi lög til. Þeir spiluðu nýtt lag í lokin, Brennisteinn, en það lag þótti mér rosalega sterkt.

Heilt yfir var ég mjög ánægður með Iceland Airwaves 2012. Þeir tónleikar sem ég náði að sjá almennilega voru allir mjög góðir. Næst ætla ég bara að passa mig að halda mig meira á einum stað svo ég endi ekki í því að missa af meirihluta tónleikanna eins og gerðist bæði á Airwaves og Pukkelpop.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s