Áramótauppgjör Biggans 2012 – Sjónvarpsþættir

Sjónvarpsþættir:

Ég sá ekkert sérstaklega mikið af sjónvarpsþáttum eða bíómyndum þetta árið, hvað þá eitthvað sem er glænýtt. Ég er dálítið mikið þannig að ef sjónvarpsþáttur er í tísku þá einhvern veginn deyr öll löngun hjá mér að sjá þáttinn, svo ég horfi yfirleitt ekki á vinsæla þætti fyrr en einhverjum árum eftir að þeir eru gerðir. En hérna er smá yfirlit yfir helstu þættina sem ég horfði á í ár, hvort sem þeir komu út árið 2012 eður ei.

Cool cats segja þér að nota ekki dóp (úr Community)

Community: Grínþáttur sem fjallar um hóp af fólki sem er í svokölluðum Community college í Bandaríkjunum, en mér skilst að slíkir skólar séu ekki mjög hátt skrifaðir hvað menntun

varðar. En þættirnir eru allavega mjög góðir, fyrsta serían byrjar frekar rólega og er kannski fremur einsleit. En í annarri og þriðju seríu er eins og handritshöfunarnir hafi ákveðið að leika sér meira og fara út fyrir kassann. Hver þáttur varð því meira eins og stuttmynd, ólík þemu tækluð í hverjum þætti og mikill hasar yfirleitt á boðstólnum. Fjórða og síðasta serían ku vera á leiðinni, mikið verður nú gaman þá.

Borgen: Meðan ég bjó úti í Danmörku setti ég mér það markmið að horfa eitthvað á danskt sjónvarp eða sjónvarpsþætti. Það misfórst eitthvað, enda danska sjónvarpið að mestu fullt af glötuðum raunveruleikaþáttum og söngvakeppnum. En ég varð mjög heillaður af þáttunum Borgen samt sem áður. Þetta eru pólitískir þættir sem fjallar um konu sem stefnir á frama í dönskum stjórnmálum. Vil nú ekki segja of mikið um innihaldið, en ég held að þættirnir gefi manni góða innsýn í heim stjórnmálanna og öll klækjabrögðin og tilfinningarnar sem fyrirfinnast þar. Ég er hrifinn af evrópskum þáttum og bíómyndum yfirleitt þar sem mér finnst þær einhvern veginn mannlegri en það sem kemur frá könunum. Þessir þættir ná að vera mannlegir á sama tíma og þeir eru mjög vel gerðir. Ef einhver veit um aðra góða danska þætti má hann endilega láta mig vita.

The Newsroom: Aðrir pólitískir þættir um lífið á fréttastofu. Þarna eru teknar raunverulegar fréttir og þær samtvinnaðar í líf fréttamannanna sem flytja þær. Margt mjög flott í þessum þáttum og góðar pælingar – sýnir manni svolítið bak við tjöldin í heimi stjórnmála, viðskipta og frétta og hvernig það tvinnast saman (hversu mikið sem er satt í því svosem). En helsti ókosturinn við þættina er hversu „amerískir“ þeir eru, ég fékk æluna alveg nokkrum sinnum upp í kok af allri væmninni og þjóðernisklisjunum sem skinu í gegnum suma þættina. En ég hlakka til að sjá aðra seríu af þessum þáttum.

Entourage: Var mjög fljótur að renna í gegnum nokkrar seríur af þessum þáttum, en svo er eins og þetta hafi verið að þynnast ansi verulega í lokin og ég hef ekki enn nennt að klára áttundu og síðustu seríuna.

30 rock gerir þér kleift að gefa englum fæv

30 Rock: Ég hef heyrt að þeir ætli að hætta að framleiða þessa grínþætti, en það væri mikil sorg. Mjög skemmtilegir grínþættir og jafnvel með dálitla ádeilu, sem ég heillast yfirleitt af. Og þeir innihalda engan dósahlátur, en vöntun á slíku er grundvallarforsenda þess að ég nenni að horfa á grínþætti!

Being: Liverpool – Þetta eru amerískir raunveruleikaþættir um uppáhalds fótboltaliðið mitt, Liverpool. Þarna er fylgst með undirbúningstímabilinu hjá liðinu og baksviðs í fyrstu leikjum liðsins. Nokkuð áhugvart að sjá þessa þætti og kíkja aðeins bakvið tjöldin hjá liðinu. En oft á tíðum ansi mikil vella og væmni – enda stílað á amerískan markað.

Secret diary of a call girl: Mörgum þykir þetta val mitt á sjónvarpsþáttum ekki alveg passa við ímynd mína sem karlmaður, en hverjum er ekki sama. Þessir þættir fjalla um líf vændiskonu, eða háklassahóru. Hún er að sinna starfi sem þér þykir skemmtilegt og fær hellings pening fyrir vikið – en er það nóg? Mér fannst allavega gaman að fylgjast með ævintýrum frú Belle, en þættirnir voru kannski orðnir full endurtekningarsamir í lok fjórðu og seinustu seríunnar.

Aðra þætti horfði ég varla á í ár, svo ég muni allavega.

Auglýsingar