Áramótaupgjörið 2014

Árið 2014 var nú meira árið !
Frægasti einstaklingurinn sem ég hafði séð var Kiefer Sutherland á flugvelli, en nú í ár fór allt á fullt!
Árið byrjaði á þvílíkri bombu, en nýju ári var fagnað með engum öðrum en Steingrími J. og þegar árið byrjar svona er ljóst að eitthvað mikið er í vændum.
Enda kom það á daginn, því strax í byrjun ársins rakst ég á Bjarna töframann á Supersub. Stuttu síðar talaði ég við Jón Jónsson tónlistarmann í símann og sömuleiðis við þá nýbakaðan föður, Ásgeir Erlendsson, úr Íslandi í dag.

Ég skrapp á salernið á árinu og sumar ferðirnar voru merkilegri en aðrar. Í einni slíkri ferð rakst ég á Eyþór Inga Eurovisionstjörnu og í annarri var ég næst-næsti maður á salernið á eftir meistara Bjartmari Guðlaugssyni, (sem samdi m.a. Óskalag Þjóðarinnar). Þar sagði hina ódauðlegu setningu „Hva, allir bara að bíða eftir mér?” , enda röðin löng.

Ég sinnti einnig menningum og listum á árinu. Ég skellti mér á uppistand og sá þar alla í Mið-Íslandi og sjálfur Nilli seldi mér miðann. Ég fór á Aldrei fór ég Suður þar sem Mugison og milljón aðrir gerðu gott mót auk þess sem ég átti gott spjall við  Herra Hammond. Einnig fór ég alla leið til Þýskalands til að sjá nokkur goð til viðbótar – en ég var svo nálægt sviðinu á Metallica og Iron Maiden að ég held ég geti núna talað um hljómsveitarmeðlimi sem vini mína.

Undir lok sumars skellti ég mér svo á Þjóðhátíð í Eyjum og þar voru margir frægir kappar. Heimsfrægastir líklegast Quarashi liðar en margir eru heimsfrægir á Íslandi – t.a.m. Helgi Björns (frændi minn í þokkabót!), Jón Jónsson og svo Stebbi Hilmars – sem á einmitt son sem heitir Birgir Steinn og hann ku vera á barmi heimsfrægðar. Á leiðinni heim í Herjólfi sat svo sjálfur Sverrir Bergmann í röðinni fyrir aftan mig. Toppaði þar góða Þjóðhátíð.

Svo gerðist ég svo frægur að fylgjast með upptökum á Óskalagi þjóðarinnar. Þar hitti ég m.a. Ragnhildi Steinunni og Jón Ólafsson, heyrði Pál Óskar hita upp röddina og svo stóð Unsteinn úr Retro Stefson við hliðina á mér dágóða stund. Á sama stað sá ég Þórhall Gunnarsson, fyrrum Kastljóslegend, reykja rafsígarettu.

Ég fór einnig í bíó á árinu og sá þar m.a. myndina Vonarstræti. Deginum eftir sá ég svo aðalstjörnu myndarinnar, Þorvald Davíð, á leiðinni í ræktina. Á annari bíómynd sá ég Pétur Jesús, Buffara og mikilmenni. Mér skilst að Sigurjón Kjartansson hafi látið sjá sig á sömu sýningu.

Ég fékk mér líka að borða á árinu 2014. Ég hitti Stefán Pálsson bjórspeking, spurningahöfund og altmuligtmand, í nokkrum kökuboðum (enda frændi hans!). Ég sá Sveppa Krull fá sér Serrano og við annað tilefni sá ég Gillzenegger og Hjöbba Ká fá sér Nana-Thai og ræða um veðmálasíður. Á kaffi Grensás sá ég nýrekinn Reyni Traustason fá sér kaffi og meððí. Talandi um Reyni, í besta bakaríi landsins, Reynir-Bakara, rakst ég á Júlíus Vífil borgarfulltrúa. Fiskikóngurinn seldi mér svo ófáar máltíðirnar og Sigfús Sigurðsson handboltastjarna var alltaf hress þegar ég keypti þorskhausa eða lönguflök snemma morguns.

Ég sinnti íþróttunum einnig á þessu ári, enda borgaði það sig augljóslega þegar ég mætti á æfingar ásamt Felixi Bergssyni og Biggest Loser stjörnuþjálfaranum Evert (eða Hinum Gráa, eins og ég kýs að kalla hann).

Á förnum vegi mætti ég stjörnutrommaranum Benna (m.a. úr 200.000 naglbítum) og Júlíus Brjánsson kaffibrúsakall sá ég  tvisvar. En ætli besti frægi einstaklingurinn sé ekki Doddi úr Samaris, eða Doddi bróðir eins og ég kýs að kalla hann. Hitti hann oftar en alla hina frægu og það skiptir miklu máli að vera í svona góðum tengslum við celebanna hér á landi.

Vonandi verður 2015 jafn viðburðarríkt.fraegir6

Auglýsingar