Upprisa bloggsins

Eftir fjögurra ára hlé hef ég ákveðið að demba mér aftur á ritvöllin, nú á nýjum stað og á nýjum tíma. Það getur verið ágætt að létta á sér hér á gagnvarpinu, á milli þess sem maður skoðar Facebook og lærir. Margir vilja meina að feisið hafi komið í staðinn fyrir blogg, en ég ætla að reyna að afsanna það, enda er ég mikið gefinn fyrir sannanir, sérstaklega í stærðfræði.Ég ætla að reyna að hafa hvert blogg lengra en meðal fésbókarstatus – annars getur maður nú alveg eins sleppt þessu.

Ég mun fjalla um það sem mér dettur í hug, en oftast mun ég örugglega færa nördisma nær hinum venjulega notanda og tala tæpitungulaust, með miklu orðagjálfri um menn en engin málefni. Ég mun stunda það óspart að blogga um fréttir og skrifa eina hnitmiðaða setningu undir, enda er það það sem almúginn vill samkvæmt moggablogginu…eða ekki.

Ég efast um að ég nenni að tala um pólitík, Icesave, Davíð Oddson eða önnur hneykslanleg málefni sem allir eru að spá í, en enginn vil heyra um. Fólk getur því fengið sinn daglega skammt af neikvæðni annarsstaðar – það getur meðal annars stofnað moggablogg, lesið Eyjuna, farið á ættarmót eða horft á Alþingi).

Einhverjar spurningar? …..  [smá vandræðaleg þögn]

Takk fyrir

p.s. Ég vona að þessi færsla verði ekki sorgleg sönnun þess að bloggið sé dautt – ég mun koma með nýjar færslur von bráðar. Ef ekki, þá megið þið jarðsetja bloggið eins og það leggur sig.

p.s. 2. Á maður að skrifa stóran staf á eftir bandstriki í miðri setningu?  Dæmi 1: Neikvæðir aðilar eru margir – hundspottið, Ólafur Liljurós og Papírus Maximus. Dæmi 2: Neikvæðir aðilar eru margir – Sjabadúí, gamligamli og Sjón.

8 thoughts on “Upprisa bloggsins

  1. Ég held að það eigi að vera lítill stafur á eftir bandstriki, á dæmunum þínum sýnist það vera réttara.

    Annars ætlaði ég bara að þakka þér fyrir, það gladdi mig mikið að sjá linkinn á þetta á facebook því það er soldið síðan ég fór að pæla í því hvað ég sakna þess tíma þegar fólk bloggaði. Status á facebook er ekki nóg fyrir mig!

    Svo í minningu gömlu folk.is og blogcentral bloggana ætla ég að segja „keep up the good work“ 😉

  2. Haha snilld, ég get breytt ummælum fólks án þess að það fatti neitt…ekki það að ég ætli að nýta mér það neitt sérstaklega.

    En ég skal reyna mitt besta til að gleðja þig Vala 😉

  3. Hey! Váts! Sáttur með þetta framtak Biggi! En what?! Ætlarðu EKKI að tala um Icesave?!?! Plííííííízzzzz nennirðu að tala um Icesave! 😮

    En að öllu gamni undanskildu, þetta dettur inn í daglega netrúntinn minn, svo þú skalt standa þig í stykkinu manni minn! 🙂

    (en asnalegt að maður neyðist til að gefa upp netfang til að geta kommentað… en hvað um það…)

    p.s. magnaður fítus að geta ritskoðað og betrumbætt komment! ég myndi ekki standast freistinguna

  4. Ánægður með framtakið.

    Muna að lauma inn einstaka stafsetningar- og málfræðivillum, ef þú vilt tryggja að þú fáir athugasemdir.

Skildu eftir svar við Rooney Hætta við svar